HM 2010

15. July kl. 02:29 eftir Gummi Gulla

Nú anda andfótboltaáhugamenn léttar þar sem heimsmeistaramótinu í knattspyrnu var að ljúka. Þeir hafa núna rétt rúmlega mánuð þar til enski boltinn byrjar aftur, við mælum með að nota þann tíma vel. Farið í frí, útá land, takið með ykkur nesti og notið tíman í að kynnast aftur. Ekki samt gleyma að tippa fyrir fyrstu umferðina síðan…

Keppnin tókst með eindæmum vel þrátt fyrir margar kvartanir ýmist undan dómörum, markaþurrð og jafnvel fótboltatuðrunni sjálfri. Spánverjar sönnuðu sig sem besta liðið í heimi í dag og fylgdu eftir gulli úr evrópukeppni landsliða fyrir tveimur árum með heimsmeistaratitlinum í ár. Í fyrsta sinn vinnur evrópskt lið HM þegar keppnin er haldin utan evrópu. Það er áhugaverð tölfræði og þegar keppnir að þessu tagi eru haldnar þá raðast upp fleiri áhugaverðar tölfræðistaðreyndir. Við hjá Vaktaranum og CLARA höfum gífurlegan áhuga á tölfræði og hvernig skemmtilegt sé að framsetja svona tölfræði.

Það fyrsta sem okkur dettur í hug þegar talað er um tölfræði í fótbolta eru mörk skoruð. Því leikurinn snýst jú um að skora mörk. Þannig við söfnuðum saman hvað hvert lið skoraði mörg mörk og hversu mörg mörk hvert lið fékk á sig. [við hvetjum ykkur til að segja seinustu setningu hratt þrisvar í röð]. Þegar við erum búnir með það þá viljum við sjá á móti hverjum hvert mark var skorað. Þetta er strax orðið frekar mikið af upplýsingum og því mikið verkefni að framsetja þetta gagnasafn. Án frekari málalenginga varð þetta niðurstaðan:

Sækja myndina á Flickr síðu Vaktarans

Hérna erum við búin að raða öllum liðunum efst eftir riðlum og framistöðu liðanna í þeim. Við sjáum hversu mörg mörk þau skoruðu á mótinu og getum síðan fylgt þeim línum til að sjá á móti hvaða liðum þau skoruðu. Breidd línanna táknar hversu mörg mörkin eru og staðsetningin fer á liðið sem skorað var hjá. Eins sést þá neðst hvað liðin fengu mörg mörk á sig og frá hverjum.

Þarna sést t.d. að Þjóðverjar sem lentu í þriðja sæti skoruðu tvöfalt meira af mörkum en Spánverjar sem unnu mótið. Hondúras og Alsír voru einu liðin sem skoruðu ekkert mark. Markaminnstu liðin voru Sviss og Alsír, Sviss fékk eitt mark á sig og skoruðu eitt sjálfir en Alsír skoraði ekkert en fékk á sig tvö mörk og þótt Portúgal hafi skorað sjö mörk á móti Norður Kóreu, þá eru það einu sjö mörkin sem þeir skoruðu á mótinu.

Þarna er hægt að sjá í fljótu bragði mikið af upplýsingum úr einföldu gagnamagni og um að gera að ná í þessa mynd og leyfa HM að lifa aðeins lengur. Vinsamlegast.

Leave a Reply

You must be logged in to post a comment.