Leitin að forseta Íslands

12. January kl. 10:29 eftir Gummi Gulla

Á því herrans ári 2012 stendur íslenska þjóðin frammi fyrir mikilvægri ákvörðun: hver skal vera næsti þjóðarleiðtogi Íslands? Í nýársávarpi sínu gaf Ólafur Ragnar Grímsson í skyn að hann ætlaði ekki að bjóða sig fram í fimmta sinn. Sú tilkynning hefur hleypt af stað þó nokkurri umræðu um hver ætti að taka við kyndlinum (Kindle-num?). Við munum fylgjast vel með umræðunni um forsetakapphlaupið og birta áhugaverðar niðurstöður hér á blogginu.

Þegar þetta er skrifað hefur verið tilkynnt um eitt framboð. Jón Lárusson, lögreglumaður, sagðist ætla að bjóða sig fram til þess að færa fólki skýran kost í kapphlaupinu. Fjölmiðlar hafa einnig verið duglegir við að halda spurningakannanir til að athuga hver ætti að fara í framboð. Nú er það bara að sitja fyrir framan tölvuna og ýta á refresh á helstu fréttasíðunum til þess að sjá hver verður næst(ur) til þess að bjóða sig fram.

Nýir miðlar – nýir tímar

Leitin að næsta forseta Íslands er að miklu leiti einstök í ár. Samfélagsmiðlar eru orðnir stór partur af daglegu lífi fólks. Fréttasíður, blogg og umræðutorg eru nú betur tengd síðum á borð við Facebook og Twitter, sem gerir það auðveldara fyrir fólk að deila fréttum og umræðu. Með þetta í huga teljum við að greining á umræðunni gæti nýst til þess að spá fyrir um útkomu kosninganna. Þar af leiðandi ætlum við að fylgjast vel með umræðunni og fyrir kosningar munum við spá fyrir um útkomuna.

Aðferðafræði og rannsóknarspurningar

Miðlar

Við munum fylgjast vel með umræðunni um þá aðila sem fara í framboð og almennt um kapphlaupið. Þar sem að stærsti hluti Íslendinga eru með lokaða Facebook síðu, þá munum við ekki taka inn umræðu af Facebook. Heildarmynd af Facebook gæti gefið ótrúlega góða innsýn í umræðuna, en því miður er það ekki möguleiki. Sömuleiðis tekur Vaktarinn ekki inn allar prentútgáfur af dag- og morgunblöðum og munum við útiloka þá miðla líka. Þess í stað munum við einblína á rafræna fréttamiðla, bloggsíður og umræðutorg.

Greining

Allri umræðu á þeim miðlum sem Vaktarinn nær til verður safnað yfir tímabilið 1. janúar 2012 til kosningadags. Greining á umræðu sem stuðst verður við er magn umræðu, tegund miðla þar sem umræða fer fram og tilfinningavægi umræðunnar.

Rannsóknarspurningar

Hér koma fyrstu drög af rannsóknarspurningunum. Það er líklegt að við munum heimsækja þær aftur seinna og lögum þær ef tilefni er til þess.

  1. Hvort skipti meira máli: magn umræðu eða tilfinningavægi umræðunnar?
  2. Hefur tegund miðils áhrif á getu til þess að spá fyrir um úrslit?

Þetta eru mjög einfaldar rannsóknarspurningar og munum við fara nánar í þær seinna. Hefur þú góða rannsóknarspurningu í huga sem á heima með þessum?

Þar til næst,

Gummi Gulla
Vaktarinn

Leave a Reply

You must be logged in to post a comment.