Twitter á Íslandi 2010

6. November kl. 02:52 eftir Gummi Gulla

Við rákum okkur í þessa stórskemmtilegu grein á bloggi sem kallast Twitterfacts. Það sem gerir hana svo skemmtilega er að hún fer í gegnum ástand Twitterheima á Íslandi snemma árs 2008. Okkur fannst þar af leiðandi mjög sniðugt að gera sambærilega færslu, sem myndi útskýra ástandið snemma árs 2010.

En byrjum á því að kryfja aðeins þá tölfræði sem var í gangi árið 2008.

Skv. Twitterfacts þá voru 84 Íslendingar á Twitter eða einn aðgangur á hverja 3725 íbúa og var okkar maður @BrianSuda fyrstur til að skrá sig. Þá var virkasti notandinn að Twitta 13,18 sinnum á dag.

Sömuleiðis er áhugavert að skoða hversu margir voru virkir, hver hafði flesta fylgjendur og hver var að fylgja flestum. Í heildina litið eru þetta skemmtilegar upplýsingar sem eru dregnar fram og er áhugaverðast að skoða hver breytingin hefur verið.

Hér eru niðurstöður Vaktarans:

Það eru 3532 Íslendingar á Twitter eða einn aðgangur á u.þ.b. hverja 90 íbúa og var @svennirusl, en ekki @briansuda, fyrstur á Íslandi til þess að Twitta. Engu að síður erum við stoltir af okkar manni að hafa verið með þeim fyrstu. Síðastliðinn sólarhring hafa 276 notendur verið virkir, sem er um 8% af heildarfjölda notenda.

Hér fyrir neðan er mynd af þróuninni á Íslandi. Þar eru merktir inn 6 atburðir, sem okkur fannst áhugavert að nefna.

Eins og sést á myndinni þá skráði fyrsti notandinn sig í október 2006 (A). Sprotafyrirtækin eru svo auðvitað með tæknipúlsinn á hreinu og var það Jónas í Gogogic sem skráði fyrsta sprotann í júlí 2007 (B). Fyrsta fyrirtækið kom síðan ekki fyrr en í byrjun árs 2008 og þá var það Iceland Express (C). Þegar líður á árið 2008 fer að aukast í nýskráningum og MBL kemur inn í nóvember (D). Í byrjun árs 2009 hefst svo nýskráningar toppur. Það erfitt að rekja hvað gæti hafa gerst sem olli þessari skyndilegu aukningu. Við teljum að það hafi verið vegna þess að trendsetterinn Oprah byrjaði að Twitta í janúar 2009 (E). Sprengjan var svo stór að meira segja Ríkisskattstjóri sá tækifæri í því að byrja að Twitta í febrúar 2009 (F).

Ef við skoðum hverjir voru fimm fyrstu einstaklingarnir á Twitter, þá sjáum við að @briansuda var í raun þriðji til þess að skrá sig.

  • @svennirusl – 26.10.2006
  • (@karmaboy – 27.10.2006)
  • @GunnarHafdal – 7.11.2006
  • @briansuda – 22.11.2006
  • @dmd – 2.12.2006
  • @ingig – 12.12.2006

Fyrsta tweetið sem kom frá Íslendingi var frá @svennirusl og hljóðaði svo: “Not much.” Hann er samtals búinn að skrifa 57 Tweet og er ennþá virkur, þó ekki kannski eins virkur og aðrir. Annars eru allir af þeim sem eru á þessum topp fimm (sex ef þið lesið listann vel) virkir í dag.

Ástæðan fyrir því að @karmaboy er í sviga er sú að hann er ekki íslenskur né býr á Íslandi, en hann hins vegar Tweetaði þetta: “Lainey and I have been craving Bæjarins Beztu Pylsur”. Kerfið okkar greip þetta og flokkaði hann sem Íslending.

Ef við skoðum fyrirtækin þá var það eins og fyrr segir @gogogic sem skráðu sig fyrst:

@gogogic – 15.7.2007

@icelandexpress – 8.1.2008

@eyjan – 28.1.2008

@icelandreview – 8.5.2008

@siminn – 22.5.2008

Til gamans má geta þá skráði @vaktarinn sig 6. ágúst 2009!

Smá umræða

Twitter er ekki búið að ná sömu vinsældum og Facebook á Íslandi. Þó að 1 af hverjum 92 er með aðgang, þá eru aðeins 8% af þeim virkir. Í byrjun árs 2009 var mjög stór kippur í nýskráningu sem tók að dala þegar leið á árið. Hvort að Twitter sé að staðna á Íslandi er erfitt að segja. Að okkar mati þá verður þetta að öllu leiti bundið við hvort hinn almenni Íslendingur sjái sama virði (eða nýtt) í Twitter og hann gerir í Facebook.

Við ætlum að fylgjast vel með þróuninni á Twitter og gefa ykkur reglulega uppfærslur. Þið getið sömuleiðis fylgst með vaktarinn.is/twitter þar sem mikið af þessum upplýsingum eru uppfærðar í rauntíma.

Leave a Reply

You must be logged in to post a comment.