Að stilla RSS úr Vaktaranum

11. September kl. 04:12 eftir Kerfisstjóri

Við settum Vaktarann 2.0 í loftið fyrir stuttu síðan. Með uppfærslunni komu nokkrir mjög öflugir eiginleikar. Einn af þeim er að búa til RSS veitu úr niðurstöðum í Vaktaranum.

Með því að búa til RSS veitu er hægt að tengja hana við innri og ytri vefi fyrirtækisins. Þannig getur þú fengið efni um þínar leitir beint á þessa vefi, hvort sem um óritskoðað efni er að ræða, eða efni handvalið af þér.

Uppsetning á einfaldri RSS veitu

Ferlið við að setja upp RSS veitu er mjög einfalt:

  1. Þú býrð til leit sem þú vilt fá RSS yfir, eða notar leit sem er nú þegar til
  2. Í leitarumsjóninni smellir þú á RSS merkið hægra megin við titil leitar (sjá mynd að neðan)
  3. Þegar þú smellir á merkið opnast nýr gluggi með RSS veitunni fyrir tiltekna leit
  4. Þú bætir slóðinni við í hvaða RSS lesara sem er (t.d. Google Reader) eða á RSS veituna á innri / ytri vef þíns fyrirtækis
  5. Í hvert skipti sem ný færsla fyrir þessa leit finnst hjá Vaktaranum, birtist hún í RSS veitunni þinni

Uppsetning á ritskoðaðri RSS leit

Í sumum tilvikum vilt þú hafa fullkomna stjórn á því hvaða greinar birtast á innri / ytri vefjum þínum.  Í þeim tilvikum getur þú búið til merki í Vaktaranum sem tilgreina hvaða greinar þú vilt að birtist í RSS veitunni þinni.

Þú býrð til merki með því að velja + bæta við merki undir titlum greina í greinalistanum

Þá poppar upp listi yfir öll þau merki sem þú hefur nú þegar búið til.  Ef þú hefur ekki búið til sérstakt RSS merki, þá getur þú gert það með „Umsjón merkja” valmöguleikanum (sjá mynd fyrir ofan), eða einfaldlega með því að slá það inn í leitarstikunni (sjá „Leita eða búa til merki …” á mynd að ofan) og smella á ENTER.

Þegar þessu er lokið, getur þú búið til leit sem skilar aðeins niðurstöðum sem merktar eru með tilteknu merki:

  1. Þú opnar leitarumsjónina
  2. Býrð til nýja leit (gott er að skýra leitirnar með lýsandi nöfnum, eins og „Fyrir Vefinn Okkar” í þessu tilfelli)
  3. Velur Merki (sjá vinstra megin á mynd fyrir neðan) og hakar þar við RSS merkið þitt

Þegar búið er að vista leitina, getur þú sótt RSS veituna eins og sýnt var hér að ofan.  Þetta hefur í för með sér að í hvert skipti sem þú finnur grein sem þig langar að bæta við á innri / ytri vef þíns fyrirtækis, eða í þinn persónulega RSS lesara, þá getur þú merkt greinina með RSS merkinu í Vaktaranum og hann sér um rest.

Fyrir nánari upplýsingar, eða ef þú hefur einhverjar spurningar um þjónustu sem í boði er hjá Vaktaranum, ekki hika þá við að hafa samband.

RSS kveðjur,
Vaktarinn

Leave a Reply

You must be logged in to post a comment.